Engar frekari árásir í Pakistan

Pakistanska þingið samþykkti í dag ályktun þar sem segir, að einhliða árásir á borð við þá sem bandarískir sérsveitarmenn gerðu á hryðjuverkaleiðtogann Osama bin Laden megi ekki endurtaka sig.

Þá krefst þingið þess, að Bandaríkjamenn hætti loftárásum með fjarstýrðum flugvélum innan landamæra Pakistans.  

Ályktunin var samþykkt eftir 10 stunda langar umræður um árás bandarískra sérsveitarmanna á bin Laden í bænum Abbottabad, um 100 km frá höfuðborginni Islamabad. 

Í þingsályktunartillögunni eru einhliða aðgerðir Bandaríkjamanna innan landamæra Pakistans fordæmdar. Er ríkisstjórnin hvött til að skipa óháða rannsóknarnefnd sem rannsaki árásina í Abbottabad og komi með tillögur til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.

Þá hótaði þingið einnig að hætta samvinnu við Bandaríkjaher í tengslum við liðs- og birgðaflutninga til Afganistans.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert