Lögregla í Ástralíu skar um helgina upp herör gegn drykkjumenningunni, sem viðgengst víða í landinu. Alls voru um 1600 manns handteknir í tveggja daga aðgerðum lögreglu og ákærðir fyrir ýmis afbrot sem tengjast áfengisneyslu.
Flestir voru handteknir í New South Wales og í Vestur-Ástralíu. Í mörgum tilfellum voru hinir handteknu ákærðir fyrir brot gegn valdstjórninni. Aðrir voru meðal annars ákærðir fyrir ölvunarakstur, fyrir að kasta af sér vatni á almannafæri, og að hlýða ekki fyrirskipunum lögreglu.
Lögreglusamband New South Wales segir að ringulreið og stjórnleysi sé ríkjandi í áströlskum borgum um allar helgar vegna almennrar áfengisneyslu. Grípa þurfi til nýrra aðgerða til að ráðast að rótum vandans.
„Aðgerðin hefur sannað, að við höfum misst stjórn á áfengisneyslu og ofbeldi og að fullir hálfvitar ganga lausir um allt land," sagði Pat Gooley, formaður sambandsins í tilkynningu. „Við þurfum á að halda heildstæðri stefnu til að takast á við ofbeldisverk sem rekja má til áfengisneyslu - stefnu þar sem ráðist er að rótum vandans en ekki einkennum hans."
Nú er vetur að ganga í garð í Ástralíu en lögregla segir að ekkert lát sé á fjöldadrykkjunni þrátt fyrir kólnandi veður.