Að minnsta kosti 45 íbúar á Gasasvæðinu særðust þegar ísraelskir hermenn skutu á þá í dag. Um þúsund ungir Gasabúar gengu að Erez landamærastöðinni á landamærum Ísraels og Gasa og voru komnir mjög nálægt landamærunum þegar hermenn hófu skothríð.
Gangan að landamærunum tengdist því, að Palestínumenn minnast þess að í dag eru 63 ár liðin frá því þeir misstu land og eignir þegar Ísraelsríki var stofnað. Víða á bæði Vesturbakkanum og Gasasvæðinu fóru þúsundir manna út á götur, veifuðu fánum og héldu á gömlum húslyklum sem tákn um þann draum að þeir endurheimti eigur sínar.
Ísraelsher skaut að minnsta kosti tveimur skotum úr skriðdreka að hópnum við Eres landamærastöðina. Skotin lentu á akri og ollu ekki manntjóni.
Ísraelsher sagðist í dag hafa skotið á hóp Sýrlendinga, sem reyndi að fara yfir landamærin á Gólanhæðum. Herinn sagðist aðeins hafa skotið viðvörunarskotum en sjónvarpsstöðin Channel 2 sagði, að fjórir hefðu látið lífið. Þá eru 10-20 sagðir hafa særst.
Ísraelsmenn hertóku Gólanhæðir í sex daga stríðinu árið 1967. Þótt Sýrlendingar krefjist þess að fá svæðið aftur hefur allt verið með kyrrum kjörum þar á undanförnum áratugum.