Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, mun lýsa sig saklausan af öllum ákæruatriðum á hendur honum, að sögn lögmanns hans. Strauss-Kahn hefur verið ákærður fyrir kynferðislega árás, nauðgunartilraun og frelsissviptingu.
„Hann mun lýsa sig saklausan," sagði William Taylor, lögmaður Strauss-Kahn við AFP. Þegar lögmaðurinn var spurður hvort Strauss-Kahn muni vísa öllum ákæruatriðunum á bug svaraði hann: „Já, það mun hann gera." Tyler vildi ekki tjá sig frekar um málið.
Strauss-Kahn var handtekinn á Kennedyflugvelli í gærkvöldi, grunaður um að hafa beitt herbergisþernu á hóteli í New York kynferðislegu ofbeldi.
Mikið uppnám er beggja vegna Atlantshafsins vegna málsins. Almennt var búist við að Strauss-Kahn yrði í forsetaframboði í Frakklandi fyrir Sósíalistaflokkinn í kosningum á næsta ári en nú þykir ljóst, að hvernig sem málið í New York fer eru möguleikar Strauss-Kahn í forsetakosningum úr sögunni.
Franskir stjórnmálamenn hafa þó farið varlega í yfirlýsingum og lagt áherslu á að menn eigi rétt á að vera taldir saklausir nema annað sannist. Franska forsetaembættið lagði m.a. áherslu á þetta í yfirlýsingu sem send var út nú undir hádegið.
Þá er málið einnig afar erfitt fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem stendur víða í stórræðum um þessar mundir. Strauss-Kahn ætlaði meðal annars að eiga fund með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í dag um björgunaraðgerðir vegna ríkja á evrusvæðinu og á morgun og þriðjudag ætlaði hann að sitja fund með fjármálaráðherrum Evrópusambandsins vegna sama máls.
John Lipsky, aðstoðarforstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, lýsti því yfir í síðustu viku að hann ætlaði að hætta störfum hjá sjóðnum í ágúst þegar ráðningartíma hans lýkur.