Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur verið boðuð til fundar síðdegis til að ræða áhrif þess, að Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri sjóðsins, var handtekinn í New York í gærkvöldi og ákærður fyrir kynferðisbrot.
William Murray, talsmaður sjóðsins, segir að framkvæmdastjórnin muni koma saman á óformlegum fundi í dag til að fá upplýsingar um mál framkvæmdastjórans. John Lipsky, aðstoðarframkvæmdastjóri sjóðsins, sé samkvæmt hefð starfandi framkvæmdastjóri þegar framkvæmdastjórinn er ekki í Washington, þar sem höfuðstöðvar sjóðsins eru. Muni Lipsky stýra fundinum í dag.
Þá kemur fram, að Nemat Shafik, aðstoðarframkvæmdastjóri sem stýrir starfi sjóðsins í mörgum Evrópulöndum, muni sitja fundi með fjármálaráðherrum Evrópusambandsins á morgun og þriðjudag í stað Strauss-Kahns.