Strauss-Kahn ákærður

00:00
00:00

Dom­in­ique Strauss-Kahn, fram­kvæmda­stjóri Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins, var í morg­un ákærður fyr­ir kyn­ferðis­lega árás og til­raun til nauðgun­ar í New York í Banda­ríkj­un­um.

Strauss-Kahn var meðal ann­ars ákærður fyr­ir sak­næma kyn­ferðis­hegðun, frels­is­svipt­ingu, nauðgun­ar­tilraun og árás á 32 áraa gamla konu í hót­el­her­bergi, að sögn Ryan Sesa, tals­manns lög­regl­unn­ar í New York.  

Lögmaður Strauss-Kahn sagði í tölvu­pósti til Reu­ters­frétta­stof­unn­ar að skjól­stæðing­ur sinn lýsti sig sak­laus­an af ákær­unni. 

Strauss-Kahn var hand­tek­inn um borð í flug­vél Air France á John F. Kenn­e­dyflug­velli í gær­kvöldi, rétt áður en flug­vél­in átti að leggja af stað til Frakk­lands. Hann var flutt­ur á lög­reglu­stöð í Man­hatt­an til yf­ir­heyrslu.

Að sögn banda­rískra fjöl­miðla starfar kon­an á Sofitel hót­el­inu við Times Square í New York. Hún var að þrífa her­bergi í gær og fór inn í svítu Strauss-Kahns sem hún hélt að væri mann­laus.

Blaðið New York Times hef­ur eft­ir lög­reglu, að Strauss-Kahn hafi síðan komið út úr baðher­bergi allsnak­inn. Kon­an sagði að að  Strauss-Kahn hafi þrifið í hana, dregið hana inn í svefn­her­bergi og á rúmið og síðan lokað hurðinni. Henni hafi tek­ist að verj­ast hon­um en hann hafi þá dregið hana eft­ir gangi að baðher­berg­inu þar sem hann réðist aft­ur á hana.

MSNBC sjón­varps­stöðin sagði, að Strauss-Kahn hafi neytt þern­una til að hafa við sig munn­mök inni á baðher­berg­inu og reynt að klæða hana úr nær­föt­um.

Kon­unni tókst loks að slíta sig lausa og flúði og sagði öðru starfs­fólki frá mál­inu. Það hringdi í neyðarlínu. 

Þegar lög­regl­an kom á staðinn var Strauss-Kahn á bak og burt en hann skildi eft­ir farsíma og aðra per­sónu­lega muni í her­berg­inu. Lög­regla frétti síðan að hann væri kom­inn um borð í flug­vél á Kenn­e­dyflug­velli og lét hand­taka hann. Ekki er ljóst hvort Strauss-Kahn keypti flug­miðann á flug­vell­in­um eða hvort hann átti bókað flug áður. Til stóð að hann ætti fund með Ang­elu Merkel, kansl­ara Þýska­lands, í Berlín í dag til að ræða um björg­un­araðgerðir vegna Grikk­lands. Þá ætlaði hann að sitja fund fjár­málaráðherra Evr­ópu­sam­bands­ins í Brus­sel á morg­un og þriðju­dag.

Sofitel er lúxushótel í New York.
Sofitel er lúx­us­hót­el í New York. Reu­ters
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert