Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, var í morgun ákærður fyrir kynferðislega árás og tilraun til nauðgunar í New York í Bandaríkjunum.
Strauss-Kahn var meðal annars ákærður fyrir saknæma kynferðishegðun, frelsissviptingu, nauðgunartilraun og árás á 32 áraa gamla konu í hótelherbergi, að sögn Ryan Sesa, talsmanns lögreglunnar í New York.
Lögmaður Strauss-Kahn sagði í tölvupósti til Reutersfréttastofunnar að skjólstæðingur sinn lýsti sig saklausan af ákærunni.
Strauss-Kahn var handtekinn um borð í flugvél Air France á John F. Kennedyflugvelli í gærkvöldi, rétt áður en flugvélin átti að leggja af stað til Frakklands. Hann var fluttur á lögreglustöð í Manhattan til yfirheyrslu.
Að sögn bandarískra fjölmiðla starfar konan á Sofitel hótelinu við Times Square í New York. Hún var að þrífa herbergi í gær og fór inn í svítu Strauss-Kahns sem hún hélt að væri mannlaus.
Blaðið New York Times hefur eftir lögreglu, að Strauss-Kahn hafi síðan komið út úr baðherbergi allsnakinn. Konan sagði að að Strauss-Kahn hafi þrifið í hana, dregið hana inn í svefnherbergi og á rúmið og síðan lokað hurðinni. Henni hafi tekist að verjast honum en hann hafi þá dregið hana eftir gangi að baðherberginu þar sem hann réðist aftur á hana.
MSNBC sjónvarpsstöðin sagði, að Strauss-Kahn hafi neytt þernuna til að hafa við sig munnmök inni á baðherberginu og reynt að klæða hana úr nærfötum.
Konunni tókst loks að slíta sig lausa og flúði og sagði öðru starfsfólki frá málinu. Það hringdi í neyðarlínu.
Þegar lögreglan kom á staðinn var Strauss-Kahn á bak og burt en hann skildi eftir farsíma og aðra persónulega muni í herberginu. Lögregla frétti síðan að hann væri kominn um borð í flugvél á Kennedyflugvelli og lét handtaka hann. Ekki er ljóst hvort Strauss-Kahn keypti flugmiðann á flugvellinum eða hvort hann átti bókað flug áður. Til stóð að hann ætti fund með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í Berlín í dag til að ræða um björgunaraðgerðir vegna Grikklands. Þá ætlaði hann að sitja fund fjármálaráðherra Evrópusambandsins í Brussel á morgun og þriðjudag.