Baráttan rétt að hefjast

„Þessi bardagi er rétt að hefjast," sagði lögmaður Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, eftir að dómari í New York hafnaði því að leysa Strauss-Kahn úr haldi gegn tryggingu.

Benjamin Brafman, lögmaður Strauss-Kahns, sagði eftir að dómþinginu lauk að skjólstæðingur sinn væri vonsvikinn vegna niðurstöðu dómarans. Sagði hann Strauss-Kahn neita þeim sökum, sem hann er borinn og eigi samkvæmt lögum að vera talinn saklaus nema sekt sannist. 

Saksóknari sagði, að ásakanirnar, sem Strauss-Kahn er borinn, séu alvarlegar sem og hugsanleg fangelsisrefsing en dómsskjöl sýna, að Strauss-Kahn gæti hugsanlega átt yfir höfði sér allt að 70 ára fangelsi verði hann fundinn sekur um öll ákæruatriðin.

„Sakborningurinn hélt starfsmanni hótels föngnum inni í herbergi sínu, hann beitti hana kynferðislegu ofbeldi og reyndi að nauðga henni," sagði saksóknarinn. 

Þá sögðu saksóknarar, að þetta væri ekki í fyrsta skipti, sem Strauss-Kahn væri borinn slíkum sökum og hætta væri á að hann færi úr landi yrði hann látinn laus gegn tryggingu.

„Það er nánast engin hvatning fyrir hann að dvelja í þessu landi heldur þvert á móti," sagði John A. McConnell, saksóknari. „Fari hann til Frakklands höfum við engin lagaleg úrræði til að tryggja að hann komi hingað aftur." 

Verjendurnir mótmæltu þessu og sögðu að ljóst að Strauss-Kahn hefði ekki í hyggju að vera flóttamaður það sem hann ætti eftir ólifað.

Þeir sögðu að vitni gæti borið um, að Strauss-Kahn hefði ekki reynt að flýja af hótelinu heldur hefði hann verið að flýta sér til að ná hádegisverðarfundi. Þá lögðu þeir áherslu á, að Strauss-Kahn hefði farið út á flugvöll til að ná áætlunarflugi til Parísar en hann átti að sitja fundi með evrópskum ráðamönnum þegar á sunnudag.

Melissa Jackson, dómari hafnaði hins vegar tilboði verjendanna um að Strauss-Kahn afhenti skilríki sín, legði fram 1 milljón dala í tryggingu og samþykkti að dvelja hjá dóttur sinni í New York fram á föstudag þegar mál hans verður aftur tekið fyrir hjá dómara.

„Þegar ég heyri að skjólstæðingur þinn var á JFK flugvelli í þann veginn að fara um borð í flugvél, tel ég ástæðu til að hafa áhyggjur," sagði dómarinn.

Strauss-Kahn þurfti í dag að ganga gegnum sömu meðferð í réttarsalnum og aðrir sakborningar, sem flestir eru ákærðir fyrir smáglæpi. Þannig þurfti hann m.a. að gangast undir lithimnuskönnun. 

Dominique Strauss-Kahn í réttarsalnum í dag.
Dominique Strauss-Kahn í réttarsalnum í dag. Reuters
Strauss-Kahn var þreytulegur þegar hann kom fyrir dómara í dag.
Strauss-Kahn var þreytulegur þegar hann kom fyrir dómara í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert