Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John Kerry er nú staddur í Íslamabad, höfuðborg Pakistans, þar sem hann reynir að bæta samskipti ríkjanna í kjölfar aðgerða bandarískra stjórnvalda sem leiddu til dauða Osama bin Ladens. Afsökunarbeiðni kemur hins vegar ekki til greina.
Mótmælendur hafa safnast saman víða í Pakistan til að fordæma Bandaríkin og mótmæla aðgerðum þeirra. Mikil reiði er ríkjandi yfir því að bandarískir hermenn hafi farið inn á pakistanskt yfirráðasvæði til að ráðast á bin Laden, sem var felldur í aðgerðum sérsveitarmanna 2. maí sl. Hann hafði þá verið á flótta í rúman áratug.
Þegar í ljós kom að bin Laden var í felum í virki í Abbottabad, sem er aðeins um 50 km frá Íslamabad, þá vöknuðu aftur grunsemdir á meðal Bandaríkjanna að Pakistanar hefðu leikið tveimur skjöldum, og þeir hefðu ávallt vitað hvar bin Laden væri niðurkominn.
Pakistanar vísa því alfarið á bug. Þeir segjast fagna því að bin Laden sé allur. Það sé stórt skref fram á við í baráttunni við uppreisnarhópa. Stjórnvöld í Pakistan eru aftur á móti ósátt við að hafa ekki fengið neinar upplýsingar um aðgerðir Bandaríkjanna.
Kerry, sem er formaður utanríkismálanefndar Bandaríkjaþings, fundaði með Asif Ali Zardari, forseta Pakistans, í dag. Þar voru einnig viðstaddir Ashfaq Parvez Kayani, yfirmaður pakistanska hersins, og Rehman Malik, innanríkisráðherra Pakistans.
Kerry ræddi við blaðamenn eftir fundinn. Hann segist hafa komið því á framfæri við Pakistana, með skýrum hætti, að það valdi bandarískum yfirvöldum áhyggjum að bin Laden skuli hafa dvalið í Pakistan. Einnig að aðrir andstæðingar geti leitað skjóls í landinu.
Þá lagði Kerry á það áherslu að margir bandarískir þingmenn setji spurningamerki við það hvort Bandaríkin eigi að halda áfram að veita Pakistönum efnahagslega aðstoð í ljósi þessara atburða.
„Markmiðið var ekki að biðjast afsökuna á því sem ég tel að sé sigur í baráttunni við hryðjuverk, sem mun hafa í för með sér afleiðingar sem eigi sér engin fordæmi. Markmið mitt var að ræða við leiðtogana hér um hvernig megi efla þessi mikilvægu tengsl með áhrifaríkari hætti,“ segir Kerry.
Menn ætli að grípa til aðgerða til að efla traust á milli ríkjanna. Von sé á komu Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til landsins til frekari viðræðna.