Morðum á lögreglumönnum hefur fjölgað í Bandaríkjunum. Í fyrra voru 56 lögreglumenn myrtir við skyldustörf og voru flestir þeirra skotnir af brotamönnum samkvæmt nýjum tölum sem alríkislögreglan FBI birti í dag.
Er það 16% fjölgun frá árinu áður en þá voru 48 lögreglumenn myrtir. Auk þeirra 56 sem myrtir voru í fyrra, létust 72 lögreglumenn í slysum. Er það 24 fleiri en árið 2009.
Allir lögreglumennirnir voru myrtir með skopvopnum fyrir utan einn sem ekið var yfir. Meirihluti þeirra var klæddur skotheldu vesti. Fimmtán voru myrtir í fyrirsátum, átta þegar þeir rannsökuðu grunsamlega menn eða atburði, sjö þegar þeir sinntu umferðarlagabrotum og sex þegar þeir gripu inn í innbrot eða eltu ræningja. Þá voru sex myrtir þegar þeir sinntu útköllum vegna ónæðis.