Tvítugur karlmaður lét lífið þegar hann féll fram af svalahandriði á sjöundu hæð í Brisbane í Ástralíu í gær. Maðurinn, sem var ölvaður, stillti sér upp fyrir myndatöku, en atvikið tengist nýju æði sem hefur farið sem eldur í sinu á netinu.
Á ensku kallast þetta athæfið „planking“, eða plankalagning á íslensku. Ungi maðurinn sem lést, Acton Beale, tilheyrði hóp fólks sem tekur þátt í þessu, en þeir eru kallaðir plankar.
Athæfið gengur út á það að þátttakendur leggjast á magann og hafa handleggina þétt við líkamann, þannig að þeir minni á planka. Þeir koma sér fyrir á óvenjulegum, og stundum afar hættulegum stöðum. Ljósmynd er tekin af þeim og má sjá myndirnar á netinu, m.a. á samfélagssíðum eins og Facebook.
Athæfið var lítt þekkt þar til í síðustu viku. Þá var karlmaður handtekinn fyrir að leggjast ofan á lögreglubifreið. Vinsældir ástralskrar Facebooksíðu, sem er tileinkuð fólki sem stundar slíka iðju, hafa aukist mikið að undanförnu. Á fjórum dögum fjölgaði aðdáendum síðunnar úr 10.000 í 100.000.
Svipaðar Facebooksíður hafa skotið upp kollinum, m.a. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og í Þýskalandi.
Lögreglan hefur hins vegar áhyggjur af þróun mála. Hún segist hins vegar ekki gera neinar athugasemdir við það ef fólk geri þetta ekki við hættulegar aðstæður.
„Ef þú vilt láta taka mynd af þér liggja á garðbekk sem er hálfan metra frá jörðu, þá stafar ekki mikil ógn af því,“ segir talsmaður lögreglunnar.
„Það sem veldur okkur áhyggjur er þegar fólk fer að taka upp á því að leika þetta eftir á sjöundu hæð eða með því að liggja þvert á járnbrautateina, eða á öðrum stöðum sem bjóða hættunni heim.“
Lögreglan spyr hvort það sé þess virði að láta taka fyndna mynd af sér eigi maður í hættu á því að enda í hjólastól eða jafnvel láta lífið.
Julia Gillard, forsætisráðherra Ástralíu, hefur einnig ljáð máls á þessu og látið varnaðar orð falla.
„Það er munur á saklausu sprelli og því að hætta lífi sínu,“ segir hún.