Erkibiskupinn í Höfðaborg í Suður-Afríku segir að þeir sem kjósa stjórnarandstöðuna í kosningum í landinu á miðvikudag þurfi ekki að óttast helvítisvist eins og forseti landsins, Jacob Zuma, hefur hótað.
„Fólk fer ekki til helvítis. Fólk verður að nýta kosningarétt sinn og kjósa hvaða flokk sem það vill kjósa,“ sagði Thabo Makgoba, erkibiskup Höfðaborgar í dag.
Zuma hafði sagt í kosningabaráttunni í vetur að öll atkvæði sem ekki væru greidd Afríska þjóðarráðinu (ANC), flokki hans, væri atkvæði greitt djöflinum.
„Þegar þú kýst ANC ertu líka að kjósa að fara til himnaríkis. Þegar þú kýst ekki ANC ættirðu að vita að þú ert að kjósa mann sem heldur á þríforki og steikir fólk,“ var haft eftir Zuma í febrúar.
„Þegar þú átt ANC-flokksskírteini, þá ertu blessaður. Þegar þú kemur þangað upp þá eru ýmis skírteini notuð en ef þú er með ACN-skírteini þá verður þér hleypt í gegn til himnaríkis.“
Í apríl sneri Zuma sér aftur að meintum æðri máttarvöldum.
„Guð er alltaf nálægur hvar sem við erum. Þegar þú kýst ANC eru jafnvel hendur þínar blessaðar.“
ANC hefur verið allsráðandi í suður-afrískum stjórnvöldum eftir að endir var bundinn á aðskilnaðarstefnuna árið 1994. Flokkurinn hefur þó fengið á sig mikla gagnrýni undanfarið vegna lélegrar þjónustu við fátæka, spillingu og háa glæpatíðni.