Strauss-Kahn í handjárnum

Dominique Strauss-Kahn, yfirgaf lögreglustöð í New York í handjárnum.
Dominique Strauss-Kahn, yfirgaf lögreglustöð í New York í handjárnum. Reuters

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, yfirgaf lögreglustöð í Harlem í New York í handjárnum eftir yfirheyrslur í gær. Hann kemur fyrir dómara i dag. Hann er sakaður um að hafa reynt að nauðga herbergisþernu á hóteli í borginni.

Strauss-Kahn hefur fallist á að gangast undir læknisskoðun vegna ásakana um að hafa reynt að nauðga konunni. Hann neitar þeim ásökunum sem á hann eru bornar.

Fyrirhugað var að Strauss-Khan kæmi fyrir dómara í gærkvöldi, en því var frestað til dagsins í dag vegna læknisskoðunarinnar.

William Taylor lögfræðingur sagði í gær að Strauss-Kahn hefði samþykkt að gangast undir læknisskoðun vegna þeirra ásakana sem upp á hann hafa verið bornar. Hann sagði að ekkert amaði að Strauss-Kahn, en hann væri þreyttur.

Strauss-Kahn átti að hitta Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í gær og í dag átti hann að eiga fund með fjármálaráðherrum Evrópusambandsins vegna beiðni Portúgals og Grikklands um aðstoð. Talið er að handtaka Strauss-Kahn tefji fyrir afgreiðslu málsins. Evran féll um hálft prósent þegar markaðir opnuðu í Asíu í morgun.

Strauss-Kahn er fyrrverandi fjármálaráðherra Frakklands og hefur verið nefndur sem hugsanlegur frambjóðandi til forsetaembættis í Frakklandi.

Anne Sinclair, eiginkona Strauss-Kahn, sagði í gær að hún tryði ekki þeim ásökunum sem bornar hafa verið upp á eiginmann hennar.

Strauss-Kahn var ekki í opinberum erindagjörðum í New York á laugardag og hann nýtur ekki friðhelgi sem diplómat. Konan, sem sakar hann um nauðgun, er 32 ára gömul.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert