Pólitískir bandamenn Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, viðurkenna að pólitískum ferli hans sé lokið í Frakklandi þrátt fyrir ásakanir þeirra um að hann sé fórnarlamb samsæris hægrisinnaðra andstæðinga hans.
Strauss-Kahn fór frá lögreglustöð í Harlem í New York í handjárnum eftir yfirheyrslur í gær og kemur fyrir dómara í dag. Hann er sakaður um að hafa reynt að nauðga herbergisþernu á hóteli í borginni.
Strauss-Kahn hefur fallist á að gangast undir læknisskoðun vegna ásakana um að hafa reynt að nauðga konunni. Hann neitar þeim ásökunum sem á hann eru bornar.
Eiginkona Strauss-Kahn, Anne Sinclair, er á meðal þeirra sem trúa honum og kveðst ekki hafa neinar efasemdir um að hann sé saklaus.
Straus-Kahn er fyrrverandi fjármálaráðherra Frakklands og var álitinn líklegastur til að verða forsetaefni sósíalista í næstu forsetakosningum. Jacques Attali, einn frammámanna franskra sósíalista, viðurkenndi þó að Strauss-Kahn gæti ekki gert sér neinar vonir um að verða forsetaefni sósíalista. „Hann getur ekki farið í framboð í forkosningum sósíalista, ekki einu sinni haldið stöðu sinni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum,“ sagði Attali.
Hætti Strauss-Kahn við framboð er það talið geta styrkt stöðu Þjóðfylkingarinnar undir forystu Marine Le Pen, dóttur stofnanda flokksins.
William Taylor lögfræðingur sagði í gær að Strauss-Kahn hefði samþykkt að gangast undir læknisskoðun vegna ásakananna. Hann sagði að ekkert amaði að Strauss-Kahn, en hann væri þreyttur.
Strauss-Kahn átti að hitta Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í gær og í dag átti hann að eiga fund með fjármálaráðherrum Evrópusambandsins vegna beiðni Portúgals og Grikklands um aðstoð. Talið er að handtaka Strauss-Kahn tefji fyrir afgreiðslu málsins. Evran féll um hálft prósent þegar markaðir opnuðu í Asíu í morgun.
Strauss-Kahn var ekki í opinberum erindagjörðum í New York á laugardag og hann nýtur ekki friðhelgi sem diplómat. Konan, sem sakar hann um nauðgun hefur starfað sem herbergisþerna á Sofitel lúxushótelinu í New York undanfarin þrjú ár og framkvæmdastjóri hótelsin sagði í gær, að hún væri fyrirmyndarstarfsmaður.
Talsmaður lögreglu sagði í nótt að um væri að ræða 32 ára gamla afrísk-ameríska konu sem hafi talið, að herbergið væri autt. Strauss-Kahn hafi síðan komið aftan að henni, snert hana með óviðurkvæmilegum hætti og neytt hana til kynferðisathafna.
Konan bar kennsl á Strauss-Kahn í sakbendingu á lögreglustöð í New York í gær. Dómari féllst á kröfu lögreglu um að rannsökuð verði sýni úr fötum Strauss-Kahn.