Hryðjuverkasamtökin al-Qaeda hafa valið egypskan fyrrum sérsveitarmann sem leiðtoga til bráðabirgða eftir fráfall Osama bin Ladens. Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN sagði frá þessu í kvöld.
Sagði CNN, að Saif al-Adel, sem hefur verið í forustusveit al-Qaeda, hafi verið útnefndur leiðtogi. Hafði CNN þetta eftir Noman Benotman, líbískum fyrrum félaga í samtökunum sem hefur nú afneitað hugmyndafræði þeirra.
Pakistanska dagblaðið The News birti einnig frétt í kvöld um að al-Adel hefði verið útnefndur leiðtogi al-Qaeda og hafði það eftir ónafngreindum heimildarmönnum í Rawalpindi í Pakistan.
Benotman sagði við CNN, að herskáir íslamistar hafi fyllst vaxandi óþreyju vegna þess að al-Qaeda útnefndi ekki nýjan leiðtoga. Talið er að Egyptinn Ayman al-Zawahiri, sem lengi var hægri hönd bin Ladens, verði á endanum útnefndur leiðtogi en tilnefning Adels til bráðabirgða sé til að meta viðbrögð íslamista við að múslimi, sem ekki er frá Arabíuskaga, leiði samtökin.