Fékk alvarlegt taugaáfall

Herbergisþernan hefur ekki getað snúið aftur til vinnu á Sofitel …
Herbergisþernan hefur ekki getað snúið aftur til vinnu á Sofitel hótelinu á Manhattan. reuters

Herbergisþernan, sem sakar Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi stríðir við  alvarlegt taugaáfall að sögn lögmanns hennar. 

CNN hefur eftir Jeff Shapiro, lögmanni konunnar, að líf hennar hafi umturnast eftir hina meintu árás sem hún varð fyrir á Sofitel hótelinu á Manhattan.

„Hún er harðduglegur starfskraftur,  hún er einstæð móðir og er með 15 ára gamla dóttur sína á framfæri sínu. Hún var þakklát fyrir að hafa vinnu svo hún gæti framfleytt þeim," sagði Shapiro.

„Frá því að þetta gerðist hefur hún ekki getað farið heim til sín. Hún hefur heldur ekki getað farið til vinnu á ný og hefur enga hugmynd um hvað framtíðin kann að bera í skauti sér,“ sagði Shapiro. 

AFP fréttastofan hefur eftir heimildarmanni sem þekkir konuna að hún hafi ekki þekkt Strauss-Kahn þegar hin meinta árás átti sér stað.

Strauss-Kahn var handtekinn á laugardag og ákærður fyrir að reyna að nauðga herbergisþernunni. Hann er nú vistaður í fangaklefa í alræmdu fangelsi á Rikerseyju í  New York.

Í umfjöllun CNN kemur fram að Strauss-Kahn er í einangrun í álmu fangelsins þar sem útilokað er að hann hitti aðra fanga. Viðbrigðin séu mikil fyrir hann. Hann sé vakinn klukkan sex á morgnana og fái þá morgunmat. Í eina klukkustund á dag sé honum leyft að fara úr klefanum til að hreyfa sig og horfa á sjónvarp í fylgd öryggisvarða. Þá má hann fá þrjár heimsóknir í vikunni en Strauss-Kahn er gert að dúsa í fangelsinsu fram á föstudag.

CNN segir að í kvöldverð í kvöld fái Strauss-Kahn kálfakjöt og núðlur með brauði og ávöxtum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert