Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, var í einkaerindum í New York um síðustu helgi og greiddi fyrir hótelið, þar sem hann gisti, úr eigin vasa, að sögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
William Murray, talsmaður sjóðsins, segir að samkvæmt upplýsingum hans hafi gistingin kostað 525 dali fyrir nóttina, 60 þúsund krónur.
Þetta þykir ekki dýr gisting á Manhattan og fram hafði komið í Bandarískum fjölmiðlum að svíta á Sofitel hótelinu þar sem Strauss-Kahn gisti, kosti 3000 dali, um 350 þúsund krónur, hver nótt.
Staðfest er að Strauss-Kahn gisti í svítu númer 2086. Paul Dubrule, stofnandi frönsku hótelkeðjunnar Accor, sem á hótelið, segist sjálfur oft hafa gist í þessari svítu. Hann vildi hins vegar ekki tjá sig um hvort Strauss-Kahn væri þar fastagestur.
Strauss-Kahn gisti í nótt í fangaklefa á Rikerseyju, fangelsiseyju í New York, þar sem um 11 þúsund fangar eru vistaðir í nokkrum byggingum.
Strauss-Kahn neitar sök og lögmenn hans segja að hann muni verjast af krafti. Hann er ákærður fyrir að beita 32 ára herbergisþernu í Sofitel kynferðislegu ofbeldi.
Konan segir, að hún hafi talið að svíta 2086 væri mannlaus og ætlaði að þrífa hana á laugardag. Fox News sagði, að í samræmi við reglur hótelsins hafi konan barið þrisvar að dyrum á herbergisdyrnar á 28 hæð og kallað að hún ætlaði að gera herbergið hreint áður en hún fór þar inn.
Konan segir, að Strauss-Kahn hafi síðan komið nakinn út úr baðherbergi og reynt að nauðga henni. Hann hafi þuklað á henni, reynt að klæða hana úr nærfötum og neyða hana til að hafa við sig munnmök. Konunni tókst að flýja og láta annað starfsfólk vita.
Lítið er vitað um konuna en að fram kemur í blaðinu Metro í Frakklandi, að hún heiti Nafissatou Diallo. Blaðið New York Post segir, að konan sé innflytjandi frá Afríku, einstæð móðir 16 ára stúlku og búi í Bronx. Stjórnendur Sofitel segja, að hún hafi sinnt starfi sínu af trúmennsku þau þrjú ár sem hún hefur starfað þar.
„Hún er góð manneskja, afar vingjarnleg. Nú fékk hún taugaáfall," hefur New York Post eftir starfsmanni á hótelinu. Annar sagði, að konan hefði aldrei lent upp á kant við neinn.
John McConnell, aðstoðarsaksóknari í New York, sagði að saksóknarar hefðu raðað saman mjög nákvæmri mynd af árásinni. Sagði hann að konan hefði lýst atburðum fyrir nokkrum samstarfsmönnum og lögreglu þegar í kjölfarið.