François Fillon, forsætisráðherra Frakklands, sagði á lokuðum fundi franskra þingmanna í dag, að ef ásakanirnar á hendur Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væru sannar sé um að ræða óafsakanlega hegðun.
„Ef það, sem Dominique Strauss-Kahn er sakaður um, reynist rétt stæðum við frammi fyrir afar alvarlegum verknaði sem engin leið er að afsaka," höfðu þingmenn eftir Fillon.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hefur ekki tjáð sig um málið en nokkrir ráðherrar hafa gert það auk Fillons, þar á meðal Christine Lagarde, fjármálaráðherra, sem sagði í morgun að þetta væru alvarlegt og sársaukafullt mál. Hún neitaði að tjá sig um fréttir þess efnis, að hún væri hugsanlegur eftirmaður Strauss-Kahns í starfi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Strauss-Kahn er í fangelsi á Rikerseyju í New York en hann var handtekinn á laugardag og ákærður fyrir að reyna að nauðga herbergisþernu á hóteli í New York.
Fillon lagði á fundinum í morgun áherslu á að líta ætti á Strauss-Kahn sem saklausan nema sekt hans sannaðist. Þá ætti konan, sem á í hlut, rétt á að njóta samúðar.
„Við verðum að sýna hógværð og ábyrgð," bætti Fillon við. „Enginn má reyna að hagnýta sér þetta mál."