Varaði við Strauss-Kahn fyrir þremur árum

Piroska Nagy, hagfræðingur frá Ungverjalandi, dró hæfni Dominique Strauss-Kahn til þess að vera yfirmaður alþjóðlegrar stofnunar í efa í bréfi sem hún sendi Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir þremur árum. Þetta segir manneskja sem er nákomin henni en sem vildi ekki láta nafns síns getið.

Nagy hefur starfað fyrir AGS áratugum saman en sagði skilið við stofnunina eftir ástarsamband sem hún átti við Strauss-Kahn árið 2008. Þrátt fyrir að löngu hafi verið opinbert að þau hafi átt í sambandi og rannsókn á vegum stofnunarinnar hafi hreinsað framkvæmdastjórann af öllum ásökunum þá er málið aftur komið í hámæli eftir að hann var handtekinn í New York og ákærður fyrir tilraun til nauðgunar.

Bandaríska dagblaðið The New York Times birti hluta af bréfi Nagy ásamt frásögn af því að Strauss-Kahn hafi gengið hart á eftir henni, sent henni skilaboð af kynferðislegum toga og jafnvel látið kalla hana út af salerni til þess að tala við hann.

Herma heimildir að lögfræðingar Nagy hafi sent lögfræðingum Strauss-Kahn bréf fyrir stuttu þar sem þeir vara þá við að reyna að halda því fram að það hafi verið hún sem hafði frumkvæði að ástarsambandinu. Það hafi verið hann sem eltist við hana.

Dominique Strauss-Kahn fluttur á brott frá lögreglustöð í New York.
Dominique Strauss-Kahn fluttur á brott frá lögreglustöð í New York. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert