Lífsýni á hótelherbergi Strauss-Kahn

Dominique Strauss-Kahn utan við lögreglustöðina í New York þann 15. …
Dominique Strauss-Kahn utan við lögreglustöðina í New York þann 15. maí. Reuters

Lögregla í New York rannsakar nú hvort lífsýni sem fundust á hótelherbergi Dominique Strauss-Kahn í New York kunni að tengja hann við ásakanir herbergisþernu hótelsins um að hann hafi ráðist á hana og beitt hana kynferðisofbeldi.

Fjölmiðlar segja að lífsýni hafi fundist inni í lúxussvítunni eftir að farið var með hótelþernuna þangað aftur og hún látin benda á þá staði þar sem Strauss-Kahn á að hafa þvingað hana til munnmaka og reynt að nauðga henni. Þernan minntist þess við yfirheyrslu að hún hefði hrækt út úr sér munnvatni við árásina.  Að sögn bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar ABC fer nú fram DNA rannsókn til að kanna hvort erfðaefni Strauss-Kahn finnist í sýnunum.  

The Wall Street Journal segir að stór hluti af gólfteppi svítunnar hafi einnig verið fjarlægður og fluttur á rannsóknarstofu, þar sem þernan hafi bent á tvo staði á teppinu þar sem hún segist hafa varist árásinni. Þá var leitað að DNA sýnum í einum af salernisvöskum svítunnar.  Augnlinsur, notaður tannstöngull, drykkjarglas og blóðugur plástur er einnig meðal þeirra gagna sem verið er að rannsaka.

Strauss-Kahn neitar öllum sjö ákæruliðum um kynferðisbrot. Saksóknarar í New York segjast hinsvegar hafa undir höndum gögn sem bendi til nauðgunartilraunar, þar á meðal niðurstöðu læknisrannsóknar sem framkvæmd var stuttu eftir kæru þernunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert