Aðbúnaður Dominique Strauss-Kahn hefur breyst talsvert síðan hann skráði sig út úr lúxussvítunni á Sofitel hótelinu við Times Square um helgina. Nú dvelst hann í pínulitlum klefa, sem er 3,3 metrar á breidd og 3,9 m á lengd, og er látinn klæðast íþróttagalla sem er sérstaklega hannaður fyrir fanga sem settir eru á sjálfsvígsvakt.
Vörður stendur vaktina utan við klefa Strauss-Kahn allan sólarhringinn að sögn heimildarmanns Afp. Yfirleitt fá fangar í gæsluvarðhaldi að klæðast eigin fötum og hafa hjá sér hluti í einkaeigu. Það á hinsvegar ekki við um Strauss-Kahn, sem er haldið í klefa sem yfirleitt er nýttur fyrir fanga með smitsjúkdóma. Ástæðan mun m.a. vera sú að klefinn er einangraður frá öðrum klefum fangelsisins sem þykir heppilegt vegna þess að um ræðir svo víðfrægan og valdamikinn mann. Þess er sérstaklega gætt að aðrir fangar hafi ekkert aðgengi að Strauss-Kahn þar sem talinn er hætta á því að einhver sjái tækifæri til frægðar með því að ráðast á hann.
Íþróttagallinn sem Strauss-Kahn klæðist er hannaður til að draga úr líkum á sjálfsvígi. Hann klæðist auk þess einföldum, reimalausum inniskóm. Í klefanum er rúm, sturta, klósett og lítið borð til að snæða við. Strauss-Kahn fær að hreyfa sig utandyra í klukkustund á dag auk þess sem hann hefur aðgang að sjónvarpi, þar sem hann getur m.a. fylgst með fréttaflutningi af eigin málum.
Strauss-Kahn býr við þessar aðstæður a.m.k. fram á föstudag, þegar ákveðið verður hvort réttað verður yfir honum. Fangelsisstjórinn, Norman Seabrook, segir verkefni starfsfólks umfangsmikið enda hafi aldrei áður svo frægur og valdamikill maður verið fangi á Rikers eyju.