Lögmaður hótelþernunnar sem kærði Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fyrir kynferðislegt ofbeldi, segir að hún hafi ekki vitað hver Strauss-Kahn var þegar árásin var gerð.
Konan, sem er 32 ára gömul, sagði við lögregluna í New York að Straus-Kahn hefði reynt að nauðga sér á hótelherbergi sínu þann 14. maí sl. Hún benti á hann við sakbendingu. Strauss-Kahn neitar hins vegar sök.
Breska ríkisútvarpið skýrir frá því að í nýrri skoðanakönnun telji 57% Frakka að ákæran á hendur Strauss-Kahn sé hluti af ráðabruggi gegn honum.
Jeffrey Shapiro, lögmaður hótelþernunnar, sagði að hún hefði ekki haft hugmynd um hver Strauss-Kahn væri þegar hún fór inn í herbergi hans. Daginn eftir hefði hún loks fengið að vita hvaða maður þetta væri.
Shapiro segir að það sé fáránlegt og úr lausu lofti gripið að hún sé hluti af einhverju samsæri gegn Strauss-Kahn. „Þetta er einstaklingur sem hefur orðið fyrir ofbeldi,“ segir lögmaðurinn.
Strauss-Kahn, sem er 62 ára gamall, situr nú á bak við lás og slá í fangelsinu á Rikers eyju. Hann mun mæta fyrir dómara á föstudag. Óttast er að Strauss-Kahn muni reyna að fremja sjálfsvíg og er því haft sérstakt eftirlit með honum.
Fjármálaráðherra Bandaríkjanna sagði í dag að AGS þurfi að útnefna eftirmann Strauss-Kahn, sem geti ekki lengur stjórnað stofnuninni.
Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri AGS, er í vondum málum.
Reuters