Enn lætur bin Laden í sér heyra

Al-Qaeda samtökin hafa gert opinber skilaboð frá leiðtoganum látna, Osama bin Laden, þar sem hann hvetur múslíma til að nýta sér tækifærið sem felst í mótmælunum í Arabalöndunum til að gera byltingu. Í skilaboðunum lofar bin Laden byltingarnar sem urðu í Egyptalandi og Túnis.

Skilaboð bin Ladens, sem eru hljóðskrá, voru sett á spjallsíðu stuðningsmanna Heilags stríðs, eða Jihad í gær af samtökunum As-Sahab, sem sjá um fjölmiðlasamskipti fyrir hönd al-Qaeda.

Í skilaboðunum leggur bin Laden til að sett verði upp ráð, sem getur aðstoðað þá sem eru í byltingarhugleiðingum. Ráðið ætti einnig að ákveða hvenær hagstæðast væri að breiða byltingu um allan múslímaheiminn.

„Frestun gæti þýtt glötuð tækifæri. Ef farið er of hratt af stað, gæti það haft í för með sér fleiri dauðsföll,“ segir bin Laden í skilaboðunum. „Ég held að vindar breytinga muni blása yfir gjörvallan múslímaheiminn með leyfi Allah.“

Al-Qaeda hefur haft lítið með byltingarnar og mótmælin í Arabalöndunum að gera, enda hafa þau að mestu snúist um kröfu um þjóðfélagsumbætur, en ekki heilagt stríð.Talið er þó að samtökin hafi í hyggju að nýta sér þá bylgju mótmæla sem hefur riðið yfir Norður-Afríku og Mið-Austurlönd.

„Þið standið núna á krossgötum og hafið einstakt tækifæri til að losna undan yfirgangi Vesturlanda,“ sagði bin Laden í skilaboðunum. „Það væri stór synd og einstakt kæruleysi að sóa þessu tækifæri sem samfélag múslíma hefur beðið svo lengi eftir.“

Hann sakar valdamenn í múslímalöndum um valdagræðgi og að þeir nýti sér bæði fjölmiðla og trúarsamfélagið til að viðhalda völdum sínum.

Bin Laden varar við málamiðlunum og samningum. „Það er enginn millivegur á milli þeirra sem fylgja sannleikanum og þeirra sem styðja svik.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert