Aserar eru mjög stoltir af sigri sínum í Evróvisjón á laugardaginn var og vona að hann verði mikil og góð landkynning fyrir Aserbaídsjan sem á síðustu árum hefur verið þekktast fyrir olíu- og gasútflutning til Evrópuríkja.
Sigurinn þýðir væntanlega að næsta söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva verður haldin í Bakú, höfuðborg Aserbaídsjans. Það verður einn stærsti viðburður í sögu landsins frá því að það fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991 og líklegt þykir að Aserar noti olíuauð sinn til að halda keppnina með miklum glæsibrag.
Viðbúið er þó einnig að söngvakeppnin beini athygli Evrópuþjóða að mannréttindabrotum og kúgun ríkisstjórnar Aserbaídsjans sem hefur notað stórauknar olíutekjur sínar til að herða tökin á landinu.
Íbúar Aserbaídsjans eru rúmar níu milljónir og flestir þeirra eru múslímar. Landið háði stríð við Armeníu um héraðið Nagorno-Karabakh eftir hrun Sovétríkjanna og um 30.000 manns lágu í valnum.
Heydar Aliyev stjórnaði Aserbaídsjan með harðri hendi frá árinu 1993 og þar til sonur hans, Ilham, tók við af honum tíu árum síðar. Ilham Aliyev var lýstur sigurvegari forsetakosninga árið 2003 en margir sökuðu stjórnarliða um að hafa beitt grófum kosningasvikum og misnotað aðstöðu sína í kosningabaráttunni. Fulltrúar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, sem fylgdust með kosningunum, sögðu að þær hefðu ekki verið lýðræðislegar. Lögreglan beitti valdi til að kveða niður mótmæli stjórnarandstæðinga og margir þeirra voru handteknir.
Olíutekjur Aserbaídsjans stórjukust eftir að ráðamennirnir sömdu við olíurisann BP um að leggja olíuleiðslu frá Kaspíahafi til Evrópuríkja. Mikill hagvöxtur hefur því verið í Aserbaídsjan síðustu árin og hlutfall fátækra lækkað úr 45% árið 2003 í 11% á liðnu ári.
Bætt lífskjör vegna olíuauðsins hafa styrkt stöðu ráðamannanna en hermt er þó að mikillar óánægju gæti meðal almennings vegna spillingar og misskiptingar. Aserbaídsjan er álitið á meðal spilltustu ríkja heims, spilltara en ríki á borð við Íran, Líbíu og Pakistan.
Hugsanlegt er að sigurinn í Evróvisjón verði til þess að ástandið í mannréttindamálum skáni í Aserbaídsjan, að sögn Aslans Amanis, sem stundar doktorsnám í fræðilegum lýðræðiskenningum við London School of Economics. Hann segir í grein The Guardian að söngvakeppnin geti orðið til þess að stjórnvöld í Aserbaídsjan hætti ekki aðeins kúgunaraðgerðunum gegn stjórnarandstöðunni heldur komi einnig á pólitískum umbótum. Til að rökstyðja þetta bendir hann m.a. á að landið verði meira í sviðsljósinu en nokkru sinni fyrr, auk þess sem yfirvöld verði að afnema ferðatakmarkanir og hætta að siga lögreglunni á fólk í hvert sinn sem það hópast saman.