Bandarísk kona sem fer fyrir vændisþjónustu í New York fullyrðir í samtali við breska dagblaðið Daily Telegraph að Dominique Strauss-Kahn, fráfarandi forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hafi keypt þjónustu nokkurra vændiskvenna á hennar vegum.
Konan heitir Kristin Davis og fullyrðir að Strauss-Kahn hafi hringt beint í farsíma hennar og reitt fram 1.200 bandaríkjadali fyrir tveggja klukkustunda gaman á hótelherbergjum. Jafngildir það 138.000 krónum á núverandi gengi krónunnar, eða 69.000 krónum á klukkustund.
„Hann vildi ósvikna bandaríska stúlku, með fersku andliti, frá Miðvesturríkjunum,“ sagði Davis í samtali við blaðið.
Kvartað undan Strauss-Kahn
Þá staðhæfir Davis að í september 2006 hafi Strauss-Kahn komið til New York vegna ráðstefnu sem Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fór fyrir.
Í þeirri heimsókn hafi honum verið send vændiskona frá Brasilíu sem hafi í kjölfarið kvartað yfir því að hann væri harðhentur.
„Hún sagði mér að senda ekki nýjar stúlkur til hans,“ hefur Davis eftir stúlkunni í samtali við Daily Telegraph.
Þjónustar yfirstéttina
Segir breska blaðið að Davis hafi setið í fangelsi á árinu 2008 vegna umsvifa sinna í vændisheiminum.
Hún mun eiga í viðskiptum við marga valdamikla menn og er Eliot Spitzer, fyrrverandi ríkisstjóri New York, þar nefndur á nafn. En Spitzer þurfi að segja af sér embætti eftir að upp komst um vændiskaup hans. Var ítarlega fjallað um þau á vef Morgunblaðsins á sínum tíma.
Má í því samhengi geta þess að því er haldið fram í heimildarmyndinni Inside Job, að Spitzer hafi verið leiddur í gildru vegna baráttu hans fyrir hertu regluverki um fjármálamarkaði. Spitzer hafi líkt og topparnir í fjármálaheiminum keypt dýra vændisþjónustu og því svo verið lekið til fjölmiðla þegar herferð hans þótti hafa gengið of langt.
Grein Daily Telegraph má nálgast hér.