Landamæri Palestínu miðuð við 1967

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði í ræðu sinni um Miðausturlönd í dag að landamæri Ísrael og framtíðarríkis Palestínu verði að liggja meðfram þeirri landamæralínu sem dregin var árið 1967. Hann sagði jafnframt að Ísraels- og Palestínumenn yrðu að ná samkomulagi um landaskipti, til að tryggja að landamærin yrðu örugg og viðurkennd af báðum aðilum.

Obama sagði að skipuleggja þurfi brotthvarf ísraelskra hersveita þar sem ganga skuli út frá því að Palestínumenn taki ábyrgð á öryggismálum í eigin, fullvalda ríki sem ekki verði hersetið. Forsetinn sagði að táknrænar tilraunir til að einangra Ísrael innan Sameinuðu þjóðanna verði ekki liðnar enda muni þær ekki verða til þess að sjálfstætt ríki Palestínu verði stofnað.

Strax í kjölfar ræðunnar í dag kallaði Mahmud Abbas, forseti Palestínu, stjórn sína til fundar til að ræða yfirlýsingar Bandaríkjaforseta.  

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði hins vegar að ekki væri hægt að fara fram á það við Ísraelsmenn að þeir færi landamæri sín þangað sem þau voru fyrir sex daga stríðið svonefnda.

Í yfirlýsingu, sem skrifstofa Netanyahus sendi frá sér eftir ræðu Obamas, eru bandarísk stjórnvöld hvött til að staðfesta þær yfirlýsingar, sem George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hefði gefið árið 2004.

Þessar yfirlýsingar hafi verið um, að Ísraelsmenn þurfi ekki að hörfa að landamærum ársins 1967. Hvort tveggja sé, að ekki sé hægt að verja þau og stórar byggðir Ísraelsmanna í Júdeu og Samariu væru handan þessara landamæra. 

Boðsgestir utanríkisráðuneytisins fylgjast með ræðu Barack Obama um stefnu Bandaríkjanna …
Boðsgestir utanríkisráðuneytisins fylgjast með ræðu Barack Obama um stefnu Bandaríkjanna gagnvart Miðausturlöndum. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert