Skylt að greina frá flutningum í útrýmingarbúðir

Eftirlifendur helfararinnar heimsækja Auschwitz útrýmingarbúðirnar í Póllandi.
Eftirlifendur helfararinnar heimsækja Auschwitz útrýmingarbúðirnar í Póllandi. Reuters

Ríkisstjóri Maryland í Bandaríkjunum skrifaði í dag undir tímamótalög, sem setja þá kvöð á franska, ríkisrekna lestafyrirtækið SNCF að veita upplýsingar  um hlutverk sitt í flutningum nasista á fólki í útrýmingarbúðir í síðari heimsstyrjöld.

Lögin eru þau fyrstu sinnar tegundar í Bandaríkjunum og ríkisstjórinn, Martin O´Malley, sagðist vonast til þess að þau verði „fyrirmynd á heimsvísu fyrr en síðar". Hann segir að með lögunum fái „eftirlifendur helfararinnar að vita að þær hörmungar sem fjölskyldur þeirra gengu í gegnum falli aldrei í gleymskunnar dá og verði aldrei endurteknar".  

Samkvæmt lögunum er lestafyrirtækinu gert skylt að gera grein fyrir aðkomu sinni að flutningum tugþúsunda gyðinga í útrýmingarbúðir. Á sama tíma eru alríkislög í ferli í bandaríska þinginu, en verði þau samþykkt verður mögulegt að fara í mál við SNCF fyrir hlutverk fyrirtækisins í helförinni.

Hinn níræði Leo Bretholz fagnaði lagasetningunni í Maryland og sagði hana „góða byrjun" en helst vildi hann að SNCF gangist við ábyrgð og játi sök sína. Bretholz tókst árið 1942 að flýja úr lest SNCF á leið í Auschwitz útýmingarbúðirnar með því að brjóta upp glugga á vöruflutningavagni sem honum var troðið í ásamt 50 öðrum. 

Um 1000 manns voru flutt í sömu lest og Bretholz frá París til Auschwitz nóvembermorgunn einn árið 1942. Margir dóu á leiðinni en 773 voru settir í gasklefa við komun í útrýmingarbúðirnar. Aðeins Bretholz og einum vini hans tókst að sleppa úr þeirri ferð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert