Dómari í New York féllst í kvöld á kröfu verjenda Dominique Strauss-Kahn um að hann verði látinn laus gegn 1 milljónar dala tryggingu, jafnvirði 115 milljóna króna, en að auki þarf Strauss-Kahn að leggja fram 5 milljóna dala ábyrgð. Mál hans verður tekið fyrir að nýju 6. júní.
Mun Strauss-Kahn sæta einskonar stofufangelsi í New York á meðan þess er beðið að réttarhöld yfir honum hefjist. Mun hann dvelja í íbúð þar sem dóttir hans hefur búið. Þá undirgengst hann einnig rafrænt eftirlit.
Strauss-Kahn var handtekinn á JFK flugvelli í New York á laugardag, grunaður um að hafa reynt að nauðga herbergisþernu á hóteli þar sem hann dvaldi. Dómari hafnaði því á mánudag að láta hann lausan gegn tryggingu og hefur Strauss-Kahn verið vistaður í fangaklefa á Rikerseyju síðan.
John McConnell, saksóknari, sagði í réttarhaldinu, að rannsóknarkviðdómur hefði fallist á að lögð verði fram ákæra á hendur Strauss-Kahn.
Anne Sinclair, eiginkona Strauss-Kahn, og Camilla dóttir hans voru í réttarsalnum í dag.