Saksóknari í Svíþjóð lagði í dag fram ákæru á hendur einum karlmanni og 23 konum fyrir að framleiða og dreifa svonefndu barnaklámi.
Karlmaðurinn, Lars Skoglund, 42 ára, er talinn vera forsprakki hringsins en hann dreifði miklu magni af barnaklámi til kvennanna, sem eru á aldrinum 38 til 70 ára.
Fram kemur í ákærunni, að þegar Skoglund var handtekinn í september var hann með í fórum sínum 1181 ljósmyndir og 40 myndskeið sem skilgreind voru sem barnaklám. Á myndunum sjáist bæði mjög ung börn og börn sem verið er að misþyrma.
Svo virðist sem Skoglund hafi komist í kynni við konurnar á spjallsíðum á netinu og fengið þær með eftirgangsmunum að taka á móti skrám sem innihéldu barnaklám.
Saksóknarinn Niclas Letenius sagði á blaðamannafundi í bænum Falum í dag, að Skoglund virðist hafa viljað kanna hvað hann kæmist langt í samskiptum við konurnar. Hann hafi fyrst rætt við þær um kynlíf og síðan um öfgakenndari tegundir kynlífs, svo sem með dýrum og loks með börnum.
Margar konurnar sögðust ekki hafa viljað hlaða niður myndunum en saksóknarar hafa birt útskriftir af netsamskiptum þeirra við Skoglund sem sýna hið gagnstæða.
Nokkrar kvennanna áttu kynferðisleg samskipti við Skoglund. Enginn þeirra var með mikið magn af ólöglegu efni í fórum sínum. Nokkrar þeirra gætu þó átt allt að 2 ára fangelsi yfir höfði sér en Skoglund allt að 6 ára fangelsi.