Þúsundir manna héldu áfram mótmælum í Madrid, höfuðborg Spánar í morgun, og í fleiri borgum í landinu, fimmta daginn í röð. Það eru aðallega ungmenni, sem taka þátt í mótmælunum og krefjast m.a. aðgerða vegna mikils atvinnuleysis.
Talið er að yfir 10 þúsund manns hafi verið á Puerta del Sol torginu í Madrid í morgun og krafist breytinga. Auk krafna um fleiri störf krefjast mótmælendur breytinga á eftirlaunakerfinu og kosningakerfinu þannig að smáflokkar eigi betri möguleika á að koma mönnum á þing.
Atvinnuleysi á Spáni er nú um 21%, það mesta í Evrópusambandinu, en 45% ungmenna á aldrinum 18-25 ára á vinnumarkaði eru án atvinnu.
Boðað hefur verið til mótmæla áfram um helgina en þá fara fram sveitarstjórnarkosningar. Yfirkjörstjórn landsins úrskurðaði í gær að ólöglegt væri að standa fyrir mótmælum á kjördag. Búist er við að Sósíalistaflokkurinn, sem nú fer með völdin í landsstjórninni, tapi miklu fylgi í kosningunum.