Heimsendapartý haldin víða

Harold Camping er boðar heimsendi á morgun.
Harold Camping er boðar heimsendi á morgun. Reuters

Trúleysingjar í Bandaríkjunum blása víða til gleðskapar í kvöld í tilefni af spá evangelísks predikara um að heimsendir verði á morgun.

Í Norður-Karólínu hafa trúleysingjar sem dæmi skipulagt „Eftirpartý eftir brotthrifninguna" sem þeir segja að verði „besta bölvaða partý í Bandaríkjunum." Hinn 89 ára gamli predikari Harold Camping fullyrðir að endurkoma Jesú Krists til jarðar verði á morgun, 21. maí, og að sannir trúendur verði þá hrifnir á brott upp til himna. Hann boðar að allir trúleysingjar verði dauðir fyrir 21. október.

Brotthrifningarpartýið sem hefst í kvöld mun standa alla helgina og er skipulagt af félagi trúleysingja og húmanista í Norður-Karólínu. Í Washington ríki hafa trúleysingjar skipulagt álíka viðburð sem þeir kalla niðurtalningu. Þá hafa heimsendapartý verið skipulögð í Houston, Flórída og Kaliforníu. Einnig hefur trúleysingi nokkur í North-Hampshire stofnað fyrirtæki sem hann nefnir „Eilíflega jarðnesk gæludýr", en markmið þess er að gæta hagsmuna gæludýra hinna trúuðu sem verði hrifnir til himna. Nú þegar hefur hann 250 kúnna sem hver og einn hefur greitt 135 Bandaríkjadali fyrir umsjá gæludýranna eftir heimsendi.

Hann segir að hinir trúuðu muni upplifa tvöföld vonbrigði: „Fyrst vegna þess að það verður enginn heimsendir. Síðan vegna þess að ég gef engar endurgreiðslur."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert