Íbúar vildu ekki Strauss-Kahn

Fyrst stóð til að Dominique Strauss-Kahn dveldi í íbúð í …
Fyrst stóð til að Dominique Strauss-Kahn dveldi í íbúð í Bristol Plaza háhýsinu í New York, en það virðist ekki hafa gengið eftir. Reuters

Hugsast gæti að Dominique Strauss-Kahn þurfi að dúsa áfram í fangaklefa yfir helgina, því illa gengur að finna dvalarstað fyrir hann. Íbúarnir í Bristol Plaza, húsinu þar sem fyrst stóð til að hann dveldi virðast hafa hafnað komu hans að sögn New York Times. Búist var við því að hann færi úr fangelsinu á Rikers eyju í dag, en þar situr hann enn.

Íbúðirnar í Bristol Plaza eru ekkert slor og eru sumar þeirra leigðar út fyrir sem nemur 1,6 milljónum á mánuði. Haft er eftir einum íbúa byggingarinnar að þeir vilji ekki sjá alla þá öryggisgæslu og fjölmiðlahasar sem óhjákvæmilega muni fylgja dvöl Strauss-Kahn. Verjendur hans verða því finna aðra íbúð sem samræmist þeim ströngu kröfum sem settar voru um stofufangelsi hans. Önnur íbúð er til skoðunar, hún er í eigu öryggisfyrirtækisins Stroz Friedberg sem annast mun öryggisgæslu yfir Strauss-Kahn allan sólarhringinn meðan hann situr í stofufangelsi. Mun hann m.a. þurfa að bera staðsetningartæki auk þess sem íbúðin á að vera vöktuð með öryggismyndavélum. 

Dómari verður hinsvegar að gefa formlegt samþykki sitt fyrir staðarvalinu til að tryggja að öllum skilyrðum sé mætt og um miðjan dag í dag virtist allt stefna í að það myndi ekki nást fyrir helgina, að sögn New York Times.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert