„Manneskja ákærð fyrir að beita ofbeldi“

Dominique Strauss-Kahn
Dominique Strauss-Kahn Reuters

Dominique Strauss-Kahn verður nú leystur úr haldi gegn tryggingu en fær ekki að fara úr landi. Margir hafa amast við þeirri hrottalegu venju Bandaríkjamanna að handjárna varðhaldsfanga. Bent er á að þessi siður brjóti beinlínis gegn því helga lögmáli að allir séu saklausir þar til sekt sé sönnuð.

En um hvað snýst málið sjálft, er þetta tóm skinhelgi, er Strauss-Kahn bara fjölþreifinn til kvenna og þess vegna þyrnir í augum bandarískra púrítana?

Sænski lagaprófessorinn Mårten Schultz er harðorður í garð fjölmiðla í grein í Dagens Nyheter. Oft sé rætt um ákæruna með loðnu orðalagi, talað um kynferðisbrot, fjallað í slúðurfréttastíl um kvennafarið. Hann sé haldinn kynlífsþorsta og alræmdur fyrir draga konur á tálar.

Grundvallaratriði réttarríkisins fari forgörðum í þessari umræðu, segir Schultz þar sem öllu sé blandað saman í einn graut.

„Það var ekki kynlífshneyksli sem olli því að [fyrrverandi] forstjóri AGS situr bak við lás og slá,“ segir Schultz. „Mikilvægi þátturinn er ekki kynlíf eða hneyksli heldur var manneskja ákærð fyrir að beita ofbeldi gegn annarri.“

Fleiri hafa gagnrýnt hvernig reynt hafi verið að útskýra og nánast afsaka meinta hegðun Strauss-Kahn með þjóðerni hans; hann sé nú Frakki og þeir séu bara svona. Verði þá að spyrja hvort það sé eðlileg hegðun hjá frönskum körlum að beita annað fólk líkamlegu ofbeldi.

Strauss-Kahn virðist ekki síður eiga vini en leikstjórinn Roman Polanski, sem á sínum tíma fyllti 13 ára stúlku af fíkniefnum og nauðgaði henni en flúði réttvísina vestra eftir að hafa játað brotið. Stuðningsmenn hans hafa margir ýjað að því með loðnu orðalagi að barnið hafi samþykkt að eiga mök við Polanski.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert