Ekkert hefur spurst til evangelíska predikarans Harold Camping eftir að hinn meinti dómsdagur 21. maí rann sitt skeið á enda. Fylgjendur hans eru furðu lostnir yfir að lífið haldi áfram, en því er ekki að neita að spádómur Camping er athyglisverður í ljósi þess sem gerðist á Íslandi í gær.
Camping, sem byggði spá sína á áratuga rannsóknum á Biblíunni, taldi nefnilega að dómsdagur myndi hefjast með jarðskjálftum kl. 18 að staðartíma í hverju tímabelti fyrir sig. Skjálftarnir myndu marka upphaf endaloka heimsins og í kjölfarið myndi brotthrifning trúaðra hefjast.
Fátt dró til tíðinda í öðrum löndum í gær, en á Íslandi kom hinsvegar fram greinilegur órói á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar einmitt um klukkan 18. Í kjölfarið hófst eldgosið í Grímsvötnum eins og landsmönnum er kunnugt um. Þetta rímar sérkennilega vel við kenningar Camping, upp að því marki þó að enn hafa engar fregnir borist af því að hinir dyggðugu séu stignir upp til himna.
Ekkert hefur náðst í Camping í dag en BBC segir að fylgjendur hans reyni nú að átta sig á því hvað fór úrskeiðis í dómsdagsspánni. Virðast sumir telja að Guð sé að láta reyna á trú þeirra. Að sögn Washington Post hefur verið sett upp sérstakt neyðarsímanúmer í Bandaríkjunum vegna hugsanlegra sjálfvígshugsana þeirra sem áttu von á að jarðnesku lífi þeirra lyki í gær.