Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, kveðst mundu fyrirskipa aðra árás í Pakistan líka þeirri sem hryðjuverkaleiðtoginn Osama bin Laden var felldur í fyrir skömmu.
Obama lýstu þessu yfir í viðtali við breska útvarpið, BBC, en hann kemur í opinbera heimsókn til Bretlands í vikunni sem er fram undan.
Forsetinn segir í viðtalinu að sú stund þegar bin Laden var felldur í áhlaupi hafi haft mikla þýðingu fyrir Bandaríkin.
Þá kom fram í viðtalinu að Obama vilji styrkja stjórnmálasambandið við pakistönsk stjórnvöld en þeim var ekki gert kunnugt um áhlaupið á hryðjuverkaleiðtogann fyrirfram.
Var forsetinn spurður hvort hann væri tilbúinn að styðja aðra árás á mikilvægt skotmark, á borð við Mullah Omar, leiðtoga talibana, og svaraði forsetinn því þá játandi. Hann færði svo rök fyrir máli sínu.
„Við virðum sjálfstæði Pakistans. En við getum ekki leyft þeim sem undirbýr morð á þegnum okkar eða þegnum bandamanna okkar - við getum ekki leyft slíkum áætlanum að ná fram að ganga án þess að grípa til aðgerða,“ sagði forsetinn í samtali við Andrew Marr.