Sósíalistaflokkurinn, stjórnarflokkurinn á Spáni, beið afhroð í sveitarstjórnakosningum í dag.
Þegar búið var að telja nánast öll atkvæði hafði flokkurinn fengið 27,81% atkvæða en Þjóðarflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, fékk 37,6%.
José Luis Rodríguez Zapatero, forsætisráðherra og leiðtogi Sósíalistaflokksins, viðurkenndi í kvöld að flokkurinn hefði beðið ósigur í kosningunum. Sagði Zapatero, að þriggja ára fjármálakreppa hefði tekið sinn toll og vaxandi atvinnuleysi hefði haft áhrif á viðhorf kjósenda.
Kosið verður til þings á næsta ári.