Erfðaefni úr Dominique Strauss-Kahn hefur nú greinst í lífsýni sem fannst á kjól hótelþernunnar, sem kærði hann fyrir kynferðisofbeldi. Fregnir herma að sæði úr framkvæmdastjóranum fyrrverandi hafi verið á kjólnum.
Lögreglan í New York sendi frönskum yfirvöldum niðurstöðurnar á sunnudag og þar voru þær staðfestar, að sögn Telegraph. Búist er við því að tilkynnt verði formlega um niðurstöðurnar fyrr en síðar, en þær virðast hafa lekið og var fyrst greint frá þeim á franska vefmiðlinum Atlantico.fr í kvöld.
Verjandi Strauss-Kahn hefur gefið til kynna að málsvörn hans muni byggja á því að þernan hafi verið samþykk kynlífi með honum. Aðrar fregnir herma að Strauss-Kahn hafi sóst eftir félagsskap tveggja annarra kvenkyns starfsmanna Sofitel hótelsins eftir að hann skráði sig þangað inn. Tvær móttökudömur hafi hafnað boði hans um að fá sér drykk með honum, áður en hann réðist á þernuna.
Strauss-Kahn er ákærður í 7 liðum, m.a. fyrir að þvinga þernuna til munnmaka. Verði hann fundinn sekur gæti hans beðið allt að 25 ár í fangelsi.