„Þetta var mjög erfið helgi," sagði Harold Camping, predikarinn aldraði, þegar hann tjáði sig í fyrsta skipti um dómsdagsspá sína sem ekki reyndist á rökum reist.
Ekkert heyrðist né sást til Camping fyrsta sólarhringinn en á sunnudagskvöldi steig hann sprellifandi en heldur hnugginn út af heimili sínu í Kaliforníu þar sem margir biðu viðbragða hans. 18 klukkustundum eftir að ljóst varð að Camping og fylgismenn hans færu ekki til himnaríkis að sinni lét predikarinn í sér heyra og sagðist orðlaus. „Ég er að leita að svörum. Annað get ég ekki sagt," sagði Camping.
Viðbrögð fylgjenda Camping hafa verið misjöfn, sumir eru ævareiðir en aðrir segjast enn munu hlíða á predikanir hans af fullri alvöru.