Talið að flugvélin hafi ofrisið

Annar tveggja flugrita flugvélarinnar.
Annar tveggja flugrita flugvélarinnar. Reuters

Sérfræðingar, sem hafa rannsakað upplýsingar úr flugritum farþegaflugvélar Air France, sem hrapaði í Atlantshaf árið 2009, segja að svo virðist sem flugvélin hafi ofrisið skyndilega.

Þýska tímaritið Spiegel hafði þetta eftir ónefndum sérfræðingi, sem hefur rannsakað gögnin. Hann sagði að ekki væri vitað nákvæmlega hvað olli slysinu en margt bendi til þess að ísing hafi valdið því  hraðaskynjarar vélarinnar störfuðu ekki rétt.

Svo virðist sem aðeins hafi liðið um fjórar mínútur frá því vélin fór að ofrísa og þar til hún skall á sjónum. 228 manns fórust með flugvélinni.  

Sérfræðingurinn segir við Spiegel, að Marc Dubois, flugstjóri vélarinnar, hafi ekki verið í stjórnklefanum þegar aðvörunarbjöllur fóru að hringja. Hann heyrist á hljóðupptökum koma hlaupandi inn í stjórnklefann og hrópa fyrirskipanir til tveggja flugmanna.

Svo virðist sem flugmönnunum hafi tekist að sneiða hjá svæði þar sem mikil ókyrrð var í lofti en ísing safnaðist á skynjara sem áttu að mæla flughraðann. Gögn úr flugritanum sýna að flugvélin hækkaði skyndilega flugið eftir að flughraðaskynjararnir biluðu. Þetta leiddi til þess að flugvélin ofreis.

Ekki er ljóst hvort ástæðan fyrir þessu var mistök flugmanns eða hvort stjórntölva flugvélarinnar greip inn þegar flughraðamælarnir gáfu til kynna að flugvélin hefði hægt flugið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert