Öskuský frá Grímsvötnum eru farin að hafa áhrif á flugumferð í Skotlandi og hafa flest bresk flugfélög ákveðið að leggja niður flug næstu klukkutímana til og frá Edinborg, Glasgow og Aberdeen.
Flugmálayfirvöld á Bretlandi flokka nú þéttni öskunnar í loftinu sem litla, miðlungs eða mikla, og láta flugfélögin vita ef hún mælist miðlungs eða mikil. Flugfélögin meta síðan áhættuna sjálf í samstarfi við flugvélaframleiðendur og sækja um leyfi flugmálayfirvalda til að fljúga meti þau hana ásættanlega.
Írsk flugmálayfirvöld neituðu flugfélaginu Ryanair um að fljúga til Skotlands í morgun en forsvarsmenn fyrirtækisins segja engar forsendur fyrir flugbanninu og hyggjast reyna fá ákvörðuninni snúið við.