Ofbeldi gagnvart konum í Búrma er „mjög raunverulegur vandi," að sögn Aung San Suu Kyi, nóbelsverðlaunahafa og leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu. Hún kallaði eftir því í dag að endir verði bundinn á nauðganir hermanna á konum í landinu.
„Nauðganir eru notaðar sem vopn í mínu landi gegn þeim sem vilja bara fá að lifa í friði, sem vilja standa fast á grundvallar mannréttindum sínum. Nauðganir eru notaðar sem vopn af hersveitum til að ógna þjóðarbrotum og til að kljúfa landið í sundur," sagði Suu Kyi. „Hver einasta nauðgun splundrar landinu okkar enn frekar á milli fólks, milli kynja, á milli vopnaðra hersveita og almennra borgara, á milli þjóðarbrota. Við verðum að gera allt sem við getum til að binda endi á þetta."
Suu Kyi, sem er 65 ára gömul, var látin laus úr stofufangelsi í nóvember stuttu eftir fyrstu kosningar í landinu í 20 ár. Hún ávarpaði árlega ráðstefnu kvenna sem hlotið hafa nóbelsverðlaun í Kanada í dag og lagði þar áherslu á að auka þyrfti veg menntunar til að útrýma nauðgunum sem stríðsvopni.