Obama fær konunglegar móttökur

Barack og Michelle Obama munu einnig heimsækja Pólland og Frakkland, …
Barack og Michelle Obama munu einnig heimsækja Pólland og Frakkland, en Evrópureisa þeirra mun standa yfir í eina viku. Reuters

Barack Obama Bandaríkjaforseti mun hefja þriggja daga opinbera heimsókn sína til Bretlands í dag, en Obama mun hitta Elísabetu Bretadrottningu í Buckhingham-höll í Lundúnum í dag. Obama og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands segja að samskipti ríkjanna séu bæði mikilvæg þjóðunum og umheiminum.

Obama mun eiga fund með Cameron á morgun, en að sögn breska ríkisútvarpsins er líklegt að viðræður þeirra muni snúast um Líbíu og málefni Miðausturlanda.

Vegna öskunnar frá eldgosinu í Grímsvötnum varð Obama að flýta för sinni til Lundúna, en hann kom til Bretlands í gær eftir að hafa heimsótt Íra.

Obama og Michelle Obama forsetafrú munu fá konunglegar móttökur síðar í dag, áður en þau heimsækja Westminster Abbey og Downing Street.

Þá munu þau hitta Hertogahjónin af Cambridge, þau Vilhjálm Bretaprins og Katrínu eiginkonu hans, í Buckhingham-höll, og óska þeim til hamingju með brúðkaupið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert