Flugfélög og flugmálayfirvöld ættu að forðast alla „tilraunastarfsemi" með því að fljúga flugvélum í gegnum öskuský frá Grímsvötnum, að mati Susan Stipp, jarðefnafræðings við Kaupmannahafnarháskóla sem skrifaði skýrslu um áhrif öskunnar úr Eyjafjallajökli á flugumferð.
„Hvorki þú né ég myndum vilja setjast upp í flugvél sem ætti að gera tilraunir með," hefur Afp eftir Stipp. Hún segir að flugfélög og flugmálayfirvöld ættu að hafa lært lexíu frá Eyjafjallajökulsgosinu í fyrra. sem olli umfangsmestu truflunum á flugumferð í heiminum síðan í Síðari heimsstyrjöld. Yfir 100.000 flugvélar sátu fastar og 8 milljónir farþega komust ekki leiðar sinnar vegna gossins.
„Margir voru pirraðir og miklir peningar töpuðust, en enginn lét lífið vegna þess að flugvél bilaði," segir Stipp. „Flugmálayfirvöld tóku rétta ákvörðun þá sem byggði á þeirri staðreynd að agnirnar í loftinu eru hættulegar í ákveðnu magni." Hún segist telja að agnirnar úr Grímsvatnagosinu séu einnig hættulegar flugvélum.
Breska flugfélagið Ryanair flaug hinsvegar um skosku lofthelgina í morgun og sagði enga ösku að finna á flugvélinni eftir það. Forsvarsmenn Ryanair saka bresk og írsk flugmálayfirvöld um að bregðast of harkalega við eldgosinu. Engu að síður hefur flugfélagið aflýst flugi til og fá Skotlandi, alls 70 ferðum.