Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að þrátt fyrir að ný risaveldi hafi litið dagsins ljós, þá sé það hlutverk Bandaríkjanna og Evrópu að leiða heiminn.
Þetta kom fram í ræðu sem Obama flutti fyrir framan breska þingmenn í dag, á öðrum degi opinberrar heimsóknar sinnar til Bretlands. Þar sagði forsetinn að samstarf Bandaríkin ásamt bandamönnum sínum í Evrópu hefðu mikilvægu hlutverki að gegna á þessari öld.
Fram kemur á vef breska útvarpsins að Obama sé fyrsti Bandaríkjaforsetinn sem ávarpi breska þingmenn í Westminster.
Obama sagði jafnframt bandalag Bandaríkjanna og Bretlands væri eitt að elsta og sterkasta í sögunni.
Viðstaddir stóðu upp og klöppuðu forsetanum lof í lófa þegar hann hóf ræðu sína. Hann fór yfir fjölmörg svið en hann ræddi m.a. um utanríkisstefnu, efnahagsmál og öryggismál á heimsvísu.
Obama viðurkenndi í ræðu sinni að ávallt væri verið að greina samskipti Breta og Bandaríkjamanna niður í smæstu eindir. „Það eru fáar þjóðir sem standa jafn þétt saman, tala hærra og berjast jafn kröftuglega til að verja lýðræðisleg gildi í heiminum, heldur en Bandaríkin og Bretland,“ sagði Obama.