Bresk kona í sólarferð á grísku eyjunni Korfu skilaði skjalatösku til lögreglunnar sem hún fann í götukanti á leið sinni frá matvöruverslun. Í töskunni voru peningaseðlar að andvirði 29 þúsund evra, eða um 4,7 milljónir króna, auk skilríkja og farsíma.
Konan, sem er um sextugt, var að koma af ströndinni í bænum Kerkyra er hún ákvað að kaupa sér í matinn. Á leið sinni þaðan kom hún auga á skjalatöskuna og virtist greinilega ekki girnast innihald hennar, heldur skilaði henni til laganna varða. Í töskunni voru 27 þúsund evrur og tvö þúsund sterlingspund.
Þeir höfðu uppi á eigandanum, sem gaf sig fljótlega fram og sagði þetta hafa verið sölulaun til starfsmanna sinna.
Lögreglan tók þær skýringar góðar og gildar og eigandi seðlanna gekk glaður burtu. EKki fylgir sögunni hvort konan skilvísa hafi fengið einhver fundarlaun.