Bandarísk yfirvöld hafa fordæmt sprengjuárás sem var gerð á hóp friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna í Líbanon í dag. Tveir þeirra særðust alvarlega.
Mark Toner, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, segir að bandarísk yfirvöld vinnu nú að því, í samstarfi með líbönskum embættismönnum og Friðargæsluliðs SÞ í Líbanon (UNIFIL), að því að safna upplýsingum á vettvangi.
„Við hvetjum stjórnvöld í Líbanon til að hefja rannsókn á atvikinu, við hvaða kringumstæður árásin var gerð, og til að tryggja það að sökudólgarnir verði látnir svara til saka,“ segir Toner.
Sprengja sprakk þar sem bílalest með ítölskum friðargæsluliðum var að aka skammt frá borginni Sidon. Mennirnir sex sem særðust eru allir Ítalir.
Massimo Fogari, talsmaður ítalska hersins, greindi frá því í dag að tveir hefðu særst alvarlega. Fyrstu fréttir af atvikinu sögðu hins vegar frá því að einn friðargæsluliði hefði látið lífið.
Verkefni UNIFIL er að gæta friðar við landamæri Líbanons við Ísrael.