Leiðtogar G8 ríkjanna svonefndu, helstu iðnríki heims, munu lýsa því yfir í lok fundar þeirra í Deauville í Frakklandi, að Múammar Gaddafi, leiðtogi Líbíu, hafi misst allt lögmætt tilkall til valda og verði að víkja. Þetta kemur fram í uppkasti að lokayfirlýsingu fundarins.
Fundi leiðtoganna er ekki lokið og því var ekki ljóst hvort tekið yrði jafn afdráttarlaust til orða í endanlegri yfirlýsingu og uppgastið ber með sér. Rússar hafa viljað reyna að miðla málum í átökunum í Líbíu.
En í uppkastinu, sem dreift var milli þátttakenda á fundinum, var ekki talað neitt rósamál.
„Það er ljóst, að Gaddafi og stjórn hans halda áfram að brjóta með alvarlegum hætti gegn líbísku þjóðinni. Gaddafi hefur tapað öllu lögmætu tilkalli til valda. Hann verður að víkja," segir í uppkastinu. „Það verður að refsa fyrir þessi glæpaverk. Við krefjumst þess, að fylgismenn Gadadfis og málaliðar hætti tafarlaust að beita óbreytta borgara valdi og einnig verði hætt að æsa til ofbeldisverka gegn almenningi."
Í uppkastinu segir einnig, að hætti Sýrlendingar ekki að beita valdi gegn mótmælendum muni G8 ríkin íhuga að taka málið upp á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.