Gúmmíkúlum beitt í Barcelona

Lögreglumenn og mótmælendur á Plaza de Cataluna í Barcelona í …
Lögreglumenn og mótmælendur á Plaza de Cataluna í Barcelona í dag. Reuters

Lögregla skaut gúmmíkúlum og kylfum til að dreifa hópi fólks sem kom sér fyrir á torgi  í miðborg Barcelona á Spáni í morgun.

Mótmælendur höfðu slegið upp tjaldbúðum á Plaza de Cataluna en í morgun tóku borgarstarfsmenn tjöldin niður. Óeirðalögreglan lét síðan til skarar skríða þegar um 50 mótmælendur settust niður á götu til að koma í veg fyrir að hreinsunarbílar frá borginni kæmust frá torginu.

Á sjónvarpsmyndum sást þegar lögreglumenn drógu fólk eftir jörðinni og börðu það með kylfum. Fréttamaður AFP sá þegar gúmmíkúlum var skotið. 

Eftir að hópnum hafði verið dreift héldu hreinsunarmenn áfram störfum á torginu undir lögregluvernd.

Mótmælendurnir eru hluti af hreyfingu, sem hófst 15. maí. Hópurinn segist vera „grama fólkið" og  gengur einnig undir nöfnunum M-15, Spænska byltingin og Raunverulegt lýðræði strax.

Fólk, aðallega ungmenni, hefur safnast saman á torgum í borgum um allan Spán og gagnrýnt hefðbundna stjórnmálaflokka, vaxandi atvinnuleysi, spillingu og niðurskurð í velferðarkerfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert