Stuðningur Svía við Karl Gústaf konung hefur minnkað verulega vegna mála sem hann hefur verið bendlaður við að undanförnu. Aðeins 44% Svía segjast styðja hann, samkvæmt skoðanakönnun Dagens Nyheter og litlu færri vilja að Viktoría krónprinsessa setjist í hásætið.
Stuðning við konung hefur minnkað hratt undanfarna mánuði. Í febrúar í fyrra vildu 64% Svía hafa konung sinn og aðeins 17% töldu að Viktoría tæki við af honum.
Síðan hafa komið fram upplýsingar um heimsóknir konungs í nektarklúbba, meðal annars í bók sem kom út í nóvember. Þá hefur einn af bestu vinum konungs viðurkennt að hafa haft samband við menn í undirheimum Stokkhólms til þess að athuga hvort til væru myndir af konungi og vinum hans við vafasamar aðstæður og kaupa þær.