Varðturnar Gaddfis felldir

Uppreisnarmenn standa ofan á herþotu stjórnarhersins í Líbíu sem eyðilagðist …
Uppreisnarmenn standa ofan á herþotu stjórnarhersins í Líbíu sem eyðilagðist í loftárás NATO. Reuters

Varðturnar sem eru við vígi Múammars Gaddafis í Trípólí, höfuðborg Líbíu, gjöreyðilögðust í loftárás NATO herþotna í dag. Þetta segir talsmaður bandalagsins.

Árásin var gerð að degi til sem þykir heldur óvenjulegt. Er það til marks um að Vesturveldin séu að setja enn meiri þrýsting á Gaddafi og neyða hann til að segja af sér.

Herforinginn John Lorimer, talsmaður breska hersins í landinu, segir að breska Typhoon herþotur hafi skotið eldflaugum sem eru með nákvæmum miðunarbúnaði á turnana, sem eru við Bab al-Aziziyah bygginguna þar sem Gaddafi heldur til.

Lorimer segir að með árásinni hafi NATO sent sterk skilaboð til ríkisstjórnar Líbíu og þeirra sem hafi ráðist á óbreytta borgara í landinu, um að þeir geti ekki endalaust falið sig á bak við virkisveggi.

Lorimer bendir jafnframt á að vígi Gaddafis sé ekki aðeins heimili hans heldur einnig stór herstöð. Þar slái hjarta líbísku leyniþjónustunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert