Hamid Karzai, forseti Afganistans, fordæmir NATO harðlega sem er sakað um að bera ábyrgð á dauða 14 saklausra borgara í suðvesturhluta landsins. Talið er að fólkið hafi látist í loftárás bandalagsins.
Karzai segir að afgönsk stjórnvöld hafi ítrekað farið fram á það við bandarísk yfirvöld að þau hætti slíkum árásum, sem leiði til þess að óbreyttir borgarar falli. Þetta hafi verið meiriháttar mistök. Karzai segir að þetta sé síðasta viðvörunin sem Bandaríkin fái.
Embættismenn í Afganistan segja að tvær konur og 12 börn hafi látist í árásinni, sem var gerð í Nawzad í Helmand. Sprengjur bandamanna hafi hæft tvö hús með fyrrgreindum afleiðingum.
Talsmaður NATO segir að hópur á vegum bandalagsins hafi farið til Helmand-héraðsins til að rannsaka málið. Árásin var gerð í gær og var ætlunin að skjóta á uppreisnarmenn.